Þungur dagur í Sandgerði

Þungur dagur í Sandgerði 1600 1186 Knattspyrnufélagið Reynir

Reynismenn áttu frekar dapran dag þegar grænklæddir nágrannar þeirra frá Njarðvík komu í heimsókn í 2. deildinni. Eftir markalausan og tíðindalítinn fyrri hálfleik náðu gestirnir forystu þegar aðeins tvær mínútur voru liðnar af þeim síðari þegar Bergþór Ingi Smárason náði að koma boltanum í netið. Við þetta kom smá neisti í Reynisliðið og innan við fimm mínútum síðar var Kristófer Páll Viðarsson, sem var valinn maður leiksins af stuðningsmönnum Reynis, búinn að jafna metin. Á næstu augnablikum virtist sem Reynismenn væru að taka öll völd á vellinum og Njarðvíkingarnir áttu í vök að verjast. Þeir hins vegar náðu einni skyndisókn sem endaði með góðu skoti frá ungum leikmanni sem ber nafnið Magnús Þórðarson og það endaði í bláhorninu á marki Rúnars Gissuarsonar. Ekki er nóg með að þessi ungi leikmaður deili nafni með einni af goðsögnum Reynisfélagsins heldur er hann sonur gömlu Reyniskempunnar Þórðar Marelssonar og þar með barnabarn Marels Andréssonar sem var heiðursfélagi í Reyni. Verst fyrir Sandgerðinga að í þetta skiptið var hann að spila með liðinu úr Reykjanesbæ. Það sem eftir lifði leiks virtust Reynismenn aldrei líklegir til að ná að skora þrátt fyrir að vera meira með boltann og þegar um korter var eftir náði gamla kempan Kenneth Hogg að bæta við þriðja marki gestanna og þar við sat. Njarðvíkingar fóru til baka yfir Miðnesheiðina með stigin þrjú eftir leik þar sem Reynismenn fundu aldrei fjölina sína.

 

Næsti leikur Reynis er næsta sunnudag á Eskjuvelli á Eskifirði og hefst hann kl. 16:00. Þar verða Austfirðingarnir í Fjarðabyggð sóttir heim, en þeir sitja eins og er í næst neðsta sæti deildarinnar með aðeins fjögur stig eftir níu leiki á meðan Reynir er í sjötta sæti með 13 stig eftir jafn marga leiki.

 

Reynir – Njarðvík 1-3 (0-0)

  1. deild karla á Blue-vellinum í Sandgerði miðvikudaginn 30. júní 2021.

Lið Reynis: Rúnar Gissuarson – Sæþór Ívan Viðarsson, Benedikt Jónsson, Unnar Már Unnarsson, Birkir Freyr Sigurðsson (f.) – Magnús Þórir Matthíasson, Ási Þórhallsson, Edon Osmani, Kristófer Páll Viðarsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson – Hörður Sveinsson (Magnús Magnússon, 70. mín).

Ónotaðir varamenn Reynis: Andri Már Ingvarsson, Eiður Snær Unnarsson, Krystian Wiktorowicz, Óðinn Jóhannsson, Strahinja Pajic, Fannar Orri Sævarsson.

Mark Reynis: Kristófer Páll Viðarsson (52. mín).

Gult spjald Reynis: Benedikt Jónsson (50. mín).