Félagsheimili Reynis

Félagsheimili Knattspyrnufélagsins, Reynisheimilið, stendur við Stafnesveg 7 í Sandgerði. Húsið var byggt af félaginu og Sandgerðisbæ árin 1995-2000.

Á efri hæð hússins er stór salur en hann er góður fyrir veislur og mannfagnaði eins og fermingarveislur, brúðkaup, erfidrykkju. Einnig hentar salurinn sérstaklega vel fyrir fundi, kennslu og fyrirlestra en skjávarpi og stórt tjald er á staðnum.

Knattspyrnufélagið Reynir Sandgerði

Það var sunnudaginn 15. september 1935 sem nokkrir ungir menn úr Sandgerði komu saman í skólahúsinu sem þá stóð við Skólatjörnina og stofnuðu félag til að spila saman knattspyrnu. Félagið ákváðu þeir að nefna Knattspyrnufélagið Reyni. Á stofnfundinum var jafnframt ákveðið hvernig búningar félagsins ættu að vera og er enn í dag farið eftir þeirri ákvörðun. Reynismerkið, sem allir þekkja, varð hins vegar ekki til fyrr en um 25 árum seinna þegar Sveinn Pálsson, teiknaði upp merkið á blað í eldhúsinu heima hjá sér.