Þriðjudaginn 29. október 2024 var undirrituð viljayfirlýsing á milli Knattspyrnufélagsins Reynis, Knattspyrnufélagsins Víðis og Suðurnesjabæjar um undirbúning á stofnun nýs íþróttafélags í Suðurnesjabæ. Stofnaður verður stýrihópur skipaður fulltrúum frá þessum þremur aðilum til að halda utan um verkefnið með það að markmiði að nýtt félag verði formlega stofnað í október eða nóvember 2025.
Stýrihópurinn mun skila áfangaskýrslu í febrúar 2025 sem verður lögð fyrir aðalfundi félaganna Reynis og Víðis. Í þeirri skýrslu komi fram tillögur að skipulagi á nýju félagi ásamt drögum að samningi milli Suðurnesjabæjar og hins nýja félags. Jafnframt á þar að liggja fyrir áframhaldandi tímalína vegna verkefnisins að stofnfundi félagsins. Hvort félag mun taka sína endanlegu ákvörðun gagnvart verkefninu á aðalfundunum sem fara fram í febrúar eða mars á næsta ári.
Í viljayfirlýsingunni kemur fram að markmiðin með því að vinna að stofnun nýs íþróttafélags séu eftirfarandi:
- Auka fagmennsku og gæði í íþróttastarfinu.
- Stuðla að fjölbreytni íþróttagreina.
- Til verði eitt íþróttafélag sem samfélagið í Suðurnesjabæ sameinast um.
- Stuðla að aukinni íþróttaiðkun hjá fólki á öllum aldri og af öllum kynjum.
- Unnið verður markvisst að uppbyggingu á aðstöðu til íþróttaiðkunar í Suðurnesjabæ og bættri nýtingu núverandi mannvirkja.
- Aukinn og markvissari stuðningur frá Suðurnesjabæ við hið nýja íþróttafélag.
Mynd: VF/Hilmar Bragi