Lög og reglur ksf. Reynis Sandgerði

1. gr.
Heiti og markmið.

Félagið heitir Knattspyrnufélagið Reynir. Aðsetur þess og varnarþing er í Sandgerði. Tilgangur félagsins er að efla og iðka knattspyrnu, svo og aðrar íþróttir og félagsstarfsemi, eftir því sem áhugi félagsmanna og ástæður félagsins leyfa hverju sinni.
2. gr.
Merki og búningar.

Merki félagsins er skjaldmynd, gulur fótknöttur á hvítum grunni, umritaður með nafni félagsins og tveimur reynishríslum í rauðum lit. Jaðar merkisins er rauður. Búningur félagsins skal vera hvít peysa með rauðri litningu á hálsi og ermum, bláar buxur og hvítir sokkar með rauðri fit.
3. gr.
Aðild að heildarsamtökum.

Félagið er aðili að Í.S.Í. og sérsamböndum þess, eftir því sem við á hverju sinni.
4. gr.
Félagar.

Félagið mynda:

  1. Heiðursfélagar.
  2. Virkir félagar.
  3. Styrktarfélagar.

Félagi getur hver sá orðið, sem óskar þess og samþykkir að taka á sig þær skyldur, er því fylgja og er samþykktur af meirihluta stjórnar þeirra íþróttadeildar, sem hann óskar að vera skráður í.
5. gr.
Skipulag félagsins.

Iðkendur hverrar íþróttagreinar mynda fjárhagslega sjálfstæðar deildir innan félagsins. Hver íþróttadeild kýs sér stjórn, sem annast daglegan rekstur viðkomandi íþróttadeildar. Að öðru leyti lúta deildirnar sameiginlegri aðalstjórn félagsins, sem er æðsti aðili í málefnum þess milli aðalfunda.

Málefni félagsins er stjórnað af:

  1. Aðalfundi félagsins.
  2. Aðalstjórn félagsins.
  3. Aðalfundum íþróttadeilda.
  4. Stjórnum íþróttadeilda.
  5. gr.
    Aðalfundur félagsins, fundartími, boðun og lagabreytingar.

Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald og ákvörðunarrétt í öllum málum þess. Skal hann haldinn eigi síður en 1. desember ár hvert. Auglýsa skal aðalfundinn opinberlega með viku fyrirvara. Aðalfundurinn tels lögmætur, ef löglega er til hans boðað.

Tillögur til breytinga á lögum félagsins skal senda aðalstjórn eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Heimilt er þó að taka fyrir á aðalfundi tillögur til breytinga á lögum félagsins, sem síðar koma fram, ef 2/3 hlutar atkvæðisbærra fundarmanna eru því samþykkir.
7. gr.
Dagskrá aðalfundar.

Dagskrá aðalfundar skal vera, sem hér segir:

  1. Formaður félagsins setur fundinn.
  2. Kosin kjörbréfanefnd (3 menn)
  3. Fundargerð síðasta aðalfundar lögð fram til samþykktar.
  4. Lagt fram álit kjörbréfanefndar.
  5. Kosinn fundarstjóri.
  6. Kosinn fundarritari.
  7. Formaður félagsins leggur fram skýslu aðalstjórnar um starfsemi og framkvæmdir á liðnu starfsári.
  8. Gjaldkeri félagssins leggur fram og útskýrir endurskoðaða reikninga aðalstjórnar og félagsins í heild fyrir liðið starfsár, til samþykktar.
  9. Lagðir fram reikningar fastra nefnda til samþykktar.
  10. Lagabreyting sbr. 6. gr. og 27. gr.
  11. Kosinn formaður.
  12. Kosnir 2 meðstjórnendur.
  13. Kosning 2 manna í varastjórn.
  14. Kosning 2 endurskoðenda og 2 til vara.
  15. Kosning 3 manna í herbergisnefnd, sem á að sjá um lagfæringar á svalaherbergi Samkomuhúss. #
  16. Önnur mál.

# þessum lið var bætt í 9. gr. lagana á aðalfundi 11 janúar 1987 og aðrir liðir greinarinnar færðust aftar sem því nemur.
8. gr.
Atkvæðagreiðslur á aðalfundi félagsins.

Á aðalfundi félagsins ræður einfaldur meirihluti úrslitum mála, nema þegar um er að ræða tilögur til breytinga á lögum félagsins, en þær verða að samþykkjast af 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna. Kosningar skulu vera skriflegar. Séu atkvæði jöfn skal kosning endurtekin. Verði atkvæði enn jöfn skal hlutkesti ráða.
9. gr.
Kjörgengi, atkvæðisréttur og tillöguréttur á aðalfundi félagsins.

Allir skuldlausir félagsmenn 16 ára og eldri hafa kjörgengi til stjórnastarfa, tillögurétt og málfrelsi á aðalfundi félagsins. Atkvæðisrétt hafa hins vegar einungis eftirtaldir aðilar.

  1. 15 fulltrúar knattspyrnudeildar kjörnir á aðalfundi deildarinnar.
  2. 10 fulltrúar handknattleiksdeildar kjörnir á aðalfundi deildarinnar.
  3. fulltrúar annara deilda, kjörnir á aðalfundi hverrar deildar

Í upphafi aðalfundarins skal afhenda kjörbréfa þeirra fulltrúa, sem fundinn sækja..

Allir skuldlausir félagar 16 ára og eldri eru kjörgengnir sem fulltrúar á aðalfundi félagsins.

Enginn fulltrúi má fara með meira en atkvæði á aðalfundi félagsins.
10. gr.
Aukaaðalfundur félagsins.

Auka aðalfund félagsins má halda ef aðalstjórnin telur þess þörf eða ef 174 hluti atkvæðisbærra fulltrúa á aðalfundi félagsins óskar eftir því, enda tilkynni þeir um leið fundarefni það, er að ræða á. Aukaaðalfundur er lögmætur, sé til hans boðað og hann sóttur saamkv. ákvæðum 6 gr. og 9. gr þessara laga. Lagabreytingar og stjórnarkosning skal þó ekki fara fram á aukaaðalfundi.
11. gr.
Félagsgjöld.

Sérhverjum félagsmanni ber að greiða félagsgjald til þeirra deildar, sem hann er félagi í. Heiðursfélagar eru undanþegnir greiðslu félagsgjalda. Féagsgjöld virkra félaga og styrktarfélaga skal ákveða á aðalfundi deildanna. 10% af félagsgjöldum til deildanna skulu renna í aðalsjóð félagsins.

Hafi félagsmaður ekki greitt félagsgjald sitt næst liðið ár, þá hefur hann fyrirgert rétti sínum til kjörgengis, málfrelsis, tillöguréttar og atkvæðisréttar á aðalfundi félagsins og aðalfundi þeirra íþróttadeildar, sem hann er skráður í.
12. gr.
Aðalstjórn, verkefni.

Aðalstjórn félagsins ber að efla félagið á allan hátt og gæta hagsmuna þess í hvívetna. Hún hefur umráðarétt yfir eignum félagsins og markar stefnu þess í aðalatriðum í samráði við stjórnir íþróttadeildanna.

Aðalstjórn skipar alla trúnaðarmenn félagsins aðra en fulltrúa í sérráð Í.S., á aðalfund sérráða Í.S. og ársþing sérsamabanda Í.S.Í. Aðalstjórn er heimilt að skiðanefndir til að vinna að ákveðnum verkefnum á hennar vegum og skulu þær leggja allar meiriháttar tillögur og ákvarðanir fyrir aðalstjórn félagsins til samþykktar.

Aðalstjórn skal taka ákvörun um skiptingu kennslustyrkja og annara styrkja, veita einstökum íþróttadeildum leyfi til fjáröflunar í nafni félagsins og ákveða skiptingu þeirra fjáröflunar sem félagið í heild stendur að.
13. gr.
Aðalstjórn

Aðalstjórn félagsins skipa 3 menn sem kjörnir á aðalfundi félagsins, auk 1 fulltrúa hverrar íþróttadeildar sem tilnefndir eru af stjórnum deildanna.

Formaður skal kjörinn sérstaklega á aðalfundi félagsins, en að öðru leyti skiptir stjórnin með sér verkum.

Kjörtímabil aðalstjórnar er á milli aðalfunda félagsins.

Formaðurinn boðar til funda í aðalstjórn, þegar hann telur nauðsynlegt eða ef 1 stjórnarmeðlimur óskar eftir fundi.

Meirihluti atkvæða ræður úrslitum í aðalstjórn. Stjórnarfundir eru löglegir, ef meirihluti aðalstjórnar er mættur.
14. gr.
Heiðursfélagar.

Kosning heiðursfélaga skal haga þannig, að stjórn félagsins ber fram tillögu um það, hvern (hverja) heiðra skuli. Kosningin er gild sé hún samþykkt af 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna.

Ekki meiga heiðursfélagar vera fleirri en 5 að tölu hverju sinni, og ekki má kjósa mann heiðursfélaga sem er yngri en 45 ára. Heiður þessi er sá æðsti sem félagið veitir.
15. gr.
Fulltrúaráð.

Fulltrúaráð skal vera starfandi innan félagsins samkvæmt sérstakri reglugerð, sem samþykkt er á aðalfundi félagsins.
16. gr.
Íþróttadeildir, starfssvið.

Hver íþróttadeild innan félagsins skal hafa sérstaka stjórn og aðskilin fjárhag. Hver íþróttadeild skal sjá um sig sjálf fjárhagslega og skal hafa tekjur af félagsgjöldum félagsmanna deildarinnar (sbr. þó 11. gr.), af ágóða íþróttamóta og öðrum fjáröflunum, sem hhún tekur sér fyrir hendur í samráði við aðalstjórn félagsins (sbr. þó 12. gr.). Allar meiriháttarfjárhagslegar ákvarðanir stjórna íþþróttadeilda ber að leggja fyrir aðalstjórn til ákvörðunar.

Í hverri íþróttadeild skal skrá í sérstaka bók úrslit kappleikja og annað markvert, sem fer fram inna deildarinnar. Í lok hvers starfsárs skal gera úrdrátt um hið markverðasta, sem síðan skal tekið inn í sameiginlega skýrslu félagsins.
17. gr.
Aðalfundir íþróttadeilda, fundartími, atkvæðisréttur, boðun.

Aðalfundur íþróttadeilda félagsins skulu haldnir svo sem hér segir:

Knattspyrnudeild eigi síðar en 15. nóvember ár hvert. Aðrar íþróttadeildir eigi síðar en 15. óktóber ár hvert.

Allir skuldlausir félagsmenn deildarinnar. 16 ára og eldri, hafa atkvæðisrétt og kjörgengi á aðalfundi deildarinnar.

Til aðalfundar íþróttadeildar skal boðað með viku fyrirvara með auglýsingu opinberlega. Aðalfundur íþróttadeildar er lögmætur, ef löglega er til hans boðaðog minnst 15 félagsmenn eru mættir.
18. gr.

Dagskrá aðalfunda íþróttadeilda.

Dagskrá aðalfunda íþróttadeilda félagsins skal vera sem hér segir:

Formaður íþróttadeildar setur fundinn.
Kosinn er fundarstjóri.
Kosinn er fundarritari
Fundargerð síðasta aðalfundar lögð fram til samþykktar.
Formaður íþróttadeildar leggur fram skýrslu deildarstjórnar um starfsemina á liðnu ári.
Gjaldkeri íþróttadeildar leggur fram og útskýrir reikninga deildarinnar fyrir liðið starfsár, endurskðaða af endurskoðendum félagsins.
Á aðalfundi knattspyrnudeildar:

  1. Kosinn formaður.
    b. Kosinn varaformaður.
    c. Kosinn gjaldkeri.
    d. Kosinn ritari.
    e. Kosnir 3 meðstjórnendur.
    f. Kosnir 3 menn í varastjórn. #2
  2. Á aðalfundi handknattleiksdeildar #3
  3. Kosinn formaður.
    b. Kosinn varaformaður.
    c. Kosinn gjaldkeri.
    d. Kosinn ritari.
    e. Kosnir 3 meðstjórnendur.
    f. Kosnir 3 menn í varastjórn.
  4. Á aðafundi körfuknattleiksdeildar #4
  5. Kosinn formaður.
    b. Kosnir 2 meðstjórnendur.
    c. Kosnir 3 menn í varastjórn.
  6. Á aðalfundi sunddeildar #5
  7. Kosinn formaður.
    b. Kosinn gjaldkeri.
    c. Kosinn ritari.
    d. Kosnir 2 meðstjórnendur.
  8. Kosnir fulltrúar og varafulltrúar á aðalfund félagsins, sbr. 9. gr. Fjöldi varafulltrúa skal vera 2/3 af fjölda aðalfulltrúa.
  9. Ákveðið félagsgjald fyrir næsta starfsár.
  10. Önnur mál.

#2 þessi liður 7. liðs 18. gr. er viðbót við upprunaleglög, en ekki er ljóst hvenarbreytingin var gerð

#3 þessi liður er viðbót við upprunaleg lög, en ekki er ljóst hvenar breyting var gerð. Sama á við um 9. lið 18. gr.. og hafa 8. og 9. liður laga frá 1980 verið feldir út.

#4 viðbót við upprunaleg lög, sbr. neðanmálsgrein nr. 3.

#5 Viðbót við 18. gr. laganna frá 1991. aðrir liðir færast aftur sem því nemur.

  1. gr.
    Atkvæðisgreiðsla á aðalfundum íþróttadeilda.

Á aðalfundi íþróttadeildar ræður meirihluti atkvæða úrslitum allra mála. Kosning deildarstjórnar skal vera skrifleg. Ef atkvæði eru jöfn skal kosið að nýju bundinni kosningu og fáist enn eigi úrslit, ræður hlutkesti.
20.gr.
Vanræksla á að halda aðalfundi íþróttadeildar.

Vanræki íþróttadeild að halda aðalfund á lögákveðnum tíma skal aðalstjórn félagsins boða til fundar og sjá um framkvæmd hans.
21. gr.
Stjórn íþróttadeildar.

Stjórn hverrar íþróttadeildar félagsins, nema knattspyrnudeildar skal skipuð 5 mönnum, formanni sem er kjörinn er sérstaklega á aðalfundi viðkomandi íþróttadeildar og 4 meðstjórnendum, einnig kjörnum á aðalfundi (sbr. 18. gr. lið 8). Deildarstjórn ákveður verkaskiptingu meðstjórnenda. #6

Stjórn knattspyrnudeildar skal skipuð 7 mönnum, formanni, varaformanni, gjaldkera og ritara, kosnum sérstaklega á aðalfundi deildarinnar og 3 meðstjórnendum einnig kjörnum á aðalfundi (sbr. 18. gr. lið 7).

Kjörtímabil deildarstjórnar er á milli aðalfunda viðkomandi íþróttadeildar. Deildarstjórnir skulu vinna að eflingu sinnar íþróttagreinar hver á sínu sviði. Deildarstjórn skipar fulltrúa félagsins í sérráð Í.S., á aðalfundi sérráða Í.S. og á fundi sérsambands Í.S.Í.

#6 Athygli er vakin á því að þessi málsgrein samræmist ekki 18. gr. laganna, eins og þau hljóða í dag.
22. gr.
Stofnun nýrra íþróttadeilda.

Nú er áhugi meðal félagsmanna á stofnun nýrrar íþróttadeildar innan félagsins og skulu þá ekki færri en 15 félagar senda skriflega beiðni til aðalstjórnar félagsins þar sem stofnun deildarinnar skal rædd og skulu fundarmenn vera minnst 15. Tillögur um stofnun nýrrar íþróttadeildar má og flytja á aðalfundi félagsins
23. gr.
Spjaldaskrá.

Sérhver íþróttadeild félagsins skal halda spjaldaskrá yfir félagsmenn deildarinnar.
24. gr.
Reikningar.

Reikningsár félagsins og íþróttadeilda þess skal miðast við 1. október. Allir reikningar skulu vera komnir til endurskoðenda félagsins eigi síðar en sex dögum fyrir aðalfund.
25. gr.
Hegning.

Hafi meðlimur félagsins brotið lög þess með framkomu sinni, hnekkt áliti þess og markmiði, skal honum hegnt samkvæmt mati aðalstjórnar. Úrskurður hennar er því gildur ef 5/6 aðalstjórnar séu honum samþykkir. Skylt er aðalstjórn að boða sakborning á sinn fund og gefa honum kost á að verja mál sitt. Áfrýja má úrskurði aðalstjórnar til næsta aðalfundar félagsins.
26. gr.
Úrsagnir.

Úrsagnir skal senda skriflega til viðkomandi deildarstjórnar. Öllum skyldum verður að vera fullnægt, áður en hægt er að taka úrsögn til greina.
27. gr.
Lagabreytingar.

Lögum þessum má ekki breyta nema á aðalfundi félagsins og þarf til þess samþykki 2/3 hluta atkvæðisbærra fundarmanna, sbr. 8. gr.

Tillögur til lagabreytinga skulu tilkynntar með aðalfundarboðinu og skulu þær liggja frammi hjá aðalstjórn félagsins eigi skemur en 7 dögum fyrir aðalfund félagsins.
28. gr.
Gildistaka.

Lög þessi öðlast þegar gildi og jafnframt eru úr gildi öll eldri lög félagsins.

 

Sandgerði, 16 nóvember 1980.

(með breytingum 1986, 1987 og 1991)

Knattspyrnufélagið Reynir Sandgerði

Það var sunnudaginn 15. september 1935 sem nokkrir ungir menn úr Sandgerði komu saman í skólahúsinu sem þá stóð við Skólatjörnina og stofnuðu félag til að spila saman knattspyrnu. Félagið ákváðu þeir að nefna Knattspyrnufélagið Reyni. Á stofnfundinum var jafnframt ákveðið hvernig búningar félagsins ættu að vera og er enn í dag farið eftir þeirri ákvörðun. Reynismerkið, sem allir þekkja, varð hins vegar ekki til fyrr en um 25 árum seinna þegar Sveinn Pálsson, teiknaði upp merkið á blað í eldhúsinu heima hjá sér.