Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ fyrr í þessari viku var leikmaður Reynis dæmdur í fimm leikja keppnisbann vegna óásættanlegrar hegðunar í leik liðsins við KF í 2. deild karla þann 10. september s.l. og jafnframt var félagið dæmt til fjársektar. Knattspyrnufélagið Reynir unir þessum úrskurði sem er sanngjarn og í samræmi við óásættanlega hegðun leikmannsins. Um leið og stjórn knattspyrnudeildar Reynis var kunnugt um málið var umræddur leikmaður sendur í leyfi frá æfingum hjá félaginu og hefur hann nú haldið aftur á sínar heimaslóðir í Króatíu.
Knattspyrnufélagið Reynir í Sandgerði er fulltrúi byggðar þar sem uppruni og bakgrunnur fólks er fjölbreyttur og sá margbreytileiki álitinn styrkur fyrir samfélagið. Þessi fjölbreytileiki endurspeglast í meistaraflokksliði Reynis sem og í iðkendum yngri flokka félagsins. Knattspyrnufélagið Reynir getur því aldrei sætt sig við að leikmenn eða aðrir fulltrúar félagsins láti frá sér ummælli eða sýni af sér hegðum sem byggir á fordómum og mannfyrirlitningu.
Stjórn knattspyrnudeildar Reynis harmar að þetta mál hafi komið upp og biður hlutaðeigandi einstaklinga afsökunar.