Fundir vegna tillögu að stofnun nýs íþróttafélags í Suðurnesjabæ fara fram 5. maí og 12. maí 2025

Fundir vegna tillögu að stofnun nýs íþróttafélags í Suðurnesjabæ fara fram 5. maí og 12. maí 2025 940 600 Knattspyrnufélagið Reynir

Frá því í október 2024 hafa fulltrúar Ksf. Reynis, Ksf. Víðis og Suðurnesjabæjar átt í viðræðum um stofnun nýs íþróttafélags í Suðurnesjabæ. Sú vinna byggir á sameiginlegri viljayfirlýsingu þessara aðila þar sem kemur fram að markmiðin með þessu séu eftirfarandi:

Auka fagmennsku og gæði í íþróttastarfinu.
Stuðla að fjölbreytni íþróttagreina.
Til verði eitt íþróttafélag sem samfélagið í Suðurnesjabæ sameinast um.
Stuðla að aukinni íþróttaiðkun hjá fólki á öllum aldri og af öllum kynjum.
Unnið verður markvisst að uppbyggingu á aðstöðu til íþróttaiðkunar í Suðurnesjabæ og bættri nýtingu núverandi mannvirkja.
Aukinn og markvissari stuðningur frá Suðurnesjabæ við hið nýja íþróttafélag.

 

Nú sér fyrir endan á þessari vinnu sem hefur verið í gangi og mánudaginn 5. maí verður haldinn kynningarfundur fyrir félaga í Ksf. Reyni á tillögu að stofnun nýs íþróttafélags í Suðurnesjabæ. Mánudaginn 12. maí verður svo haldinn aðalfundur Ksf. Reynis þar sem m.a. verður kosið um tillöguna. Bæði kynningarfundurinn og aðalfundurinn eru opnir öllum félögum í Ksf. Reyni og  í samræmi við nýsamþykktar lagarbreytingar hafa allir félagar 16 og ára og eldri atkvæðarétt á aðalfundi. Báðir þessir fundir verða auglýstir nánar þegar nær dregur og í komandi viku munu koma nánari upplýsingar varðandi félagaskrá og það sem henni tengist.