Reynisfólk tók á móti góðum gestum frá Suðurey í Færeyjum dagana 21. til 23. júlí 2025. Þar voru á ferðinni unglingalið F.C. Suðuroy í knattspyrnu bæði í karla- og kvennaflokki ásamt þjálfurum og fararstjórum. Þau stoppuðu í Sandgerði í tvo daga á leið sinni til þátttöku í Rey Cup í Reykjavík. Hópurinn gisti í Samkomuhúsinu, lék æfingaleiki í Reykjanesbæ og kíkti bæði í Skýjaborg og í sundlaugina í Sandgerði. Á seinna kvöldinu var svo hamborgaraveisla í Reynisheimilinu þar sem íþróttafólkið tók vel til matar síns og meðal gesta voru Bjarni Johansen bæjarstjóri í Vági á Suðurey og Sigursveinn Bjarni Jónsson formaður bæjarráðs Suðurnesjabæjar.
F.C. Suðuroy er sameiginlegt lið V.B. í Vági og nágrannaliðsins Sumba, en sterk vináttutengsl Reynis og V.B. teygja sig aftur á sjötta áratug síðustu aldar. Það eru komin 10 ár síðan lið frá Reyni sótti systurfélag sitt í Vági síðast heim og þessi heimsókn F.C. Suðuroy því ákaflega ánægjuleg.
Knattspyrnufélagið Reynir vill koma séstökum þökkum á framfæri til Suðurnejsabæjar fyrir allan stuðninginn og aðstoðina vegna heimsóknarinnar, til Magnúsar Þórissonar á Réttinum sem bauð öllum hópnum í hádegisverð og til Rauða krossins á Suðurnesjum sem lánaði bedda svo að allir gætu sofið vel.






