Sveinn Pálsson, 1924-2026

Sveinn Pálsson, 1924-2026 2048 1146 Knattspyrnufélagið Reynir

Reynisfólk minnist Sveins Pálssonar sem lést 11. janúar s.l., 102 ára að aldri. Sveinn var einn af stofnfélögum Knattspyrnufélagsins Reynis, höfundur merkis félagsins og
jafnframt heiðursfélagi. Sveinn Pálsson var í hópi þeirra sem stofnuðu nýtt knattspyrnufélag í Sandgerði sunnudaginn 15. september 1935 sem fékk heitið Reynir. Hann var þá aðeins 11 ára
gamall. Sveinn var mjög virkur í starfi Reynisfélagsins á fyrstu áratugum þess. Hann spilaði, þjálfaði, tók þátt í stjórnarstörfum og kom að öllum þeim ótal verkefnum sem þarf að sinna til að láta heilt íþróttafélag virka. Hann varð svo órjúfanlegur hluti af sögu Reynisfélagsins þegar hann teiknaði nýtt merki fyrir félagið rétt rúmum 20 árum eftir stofnun þess, sem er hið fallega og klassíska Reynismerki sem á sér heiðursstað í hjarta alls Reynisfólks. Í hátíðarræðu sem Sveinn flutti í saltfiskveislu í Reynisheimilinu fyrir nokkrum árum sagði hann frá því hvernig hann hannaði nýtt merki fyrir félagið sitt, sem fram að því hafði borið merki sem var bókstafurinn R inn í tígli. Hann teiknaði merkið á rúðustrikað blað þar sem hann sat við eldhúsborðið heima hjá sér á neðri hæð Lágafells í Sandgerði, eða Suðurgötu 16 sem enn stendur og enn hýsir Reynisfólk öllum þessum árum seinna. Reynismerkið er gjöf sem Sveinn Pálsson færði félaginu sínu sem verður seint full þökkuð. Á 90 ára afmælisdegi Knattspyrnufélagsins Reynis, 15. september 2025, var Sveinn Pálsson sæmdur gullmerki Knattspyrnusambands Íslands fyrir framlag sitt til íslenskrar knattspyrnu. Sveinn tók við merkinu úr hendi Þorvaldar Örlygssonar, formanni KSÍ, á heimili sínu í Garðabæ.

 

 

Útför Sveins fer fram frá Háteigskirkju í Reykjavík föstudaginn 23. janúar 2025 og hefst kl. 13:00.

Knattspyrnufélagið Reynir vottar aðstandendum samúð á kveðjustund.