Reynismenn munu leika á Brons vellinum sumarið 2023 en á dögunum undirrituðu Þorsteinn Þorsteinsson, einn af eigendum Brons, og Andri Þór Ólafsson, formaður knattspyrnudeildar Reynis, samning þess efnis.
Þorsteinn segist spenntur fyrir samstarfinu. “Við bræður höfum staðið við bakið á Reynismönnum lengi, bæði af og á velli og frábært að halda því áfram og nú í gegnum nýjasta vörumerkið okkar, Brons.”
Brons Keflavík er sportbar sem opnaður var í lok síðasta árs í húsnæði þar sem Bókabúð Keflavíkur var til margra áratuga. Eigendur eru bræðurnir Magnús Sverrir og Þorsteinn Þorsteinssynir og makar þeirra.
“Við höfum átt í frábæru samstarfi við þá bræður síðustu ár og við erum mjög ánægð með að halda því farsæla samtarfi áfram á Brons vellinum. Það er mjög mikilvægt fyrir okkur að vera með öflugt bakland fyrirtækja sem styðja vel við sitt nærsamfélag.” sagði Andri við undirritun samnings.
Fyrsti leikur meistaraflokks í Íslandsmótinu verður á Brons vellinum laugardaginn 6. maí nk. kl 16 gegn Magna frá Grenivík.