Stórsigur Reynis í rigningunni í Sandgerði

Stórsigur Reynis í rigningunni í Sandgerði 1200 873 Knattspyrnufélagið Reynir

Reynismenn unnu verðskuldaðan stórsigur á Völsungum í dag. Gestirnir spiluðu undan sterkri suðaustanáttinni í fyrri hálfleik í láréttri rigningunni á Blue-vellinum í Sandgerði. Þeim grænklæddu gekk þó ekkert sérstaklega vel að nýta sér það að hafa vindinn í bakið, áttu erfitt með að opna sterka vörn heimamanna og langskotin rötuðu illa á rammann eða voru það máttlaus að engin hætta skapaðist. Einu sinni tókst Húsvíkingunum þó að spila sig vel í gegn en þá var Rúnar Gussurarson vel á verði í markinu og varði stórkostlega. Sandgerðingarnir voru vel skipulagðir og þéttir og áttu nokkrar hættulegar sóknir. Það var í einni slíkri, rétt fyrir lok fyrri hálfleiks, sem Kristófer Páll Viðarsson var felldur inn í vítateig og gamli refurinn Hörður Sveinsson setti knöttinn af öryggi í netið úr vítaspyrnunni.

Reynir var mun sterkari á fyrstu mínutum seinni hálfleiks og sótti hart að marki Völsungs. Þegar korter val liðið af hálfleiknum kom annað mark Reynis eftir hornspyrnu. Magnús Þórir Matthíasson var einn og óvaldaður og afgreiddi boltann viðstöðulaust í netið með fallegu sniðskoti. Eftir markið bökkuðu Reynismenn aðeins og gestirnir minnkuðu aðeins þremur mínútum síðar þegar Kifah Moussa Mourad skoraði. Húsvíkingarnir náðu hins vegar ekki einu í dongið í ja-ja-dingdong-fagninu sínu því Reynismenn tóku miðju fljótt og laglegt spil kom boltanum til Harðar Sveinssonar inn vítateignum sem skoraði sitt annað mark og kom Reyni í 3-1. Tíu mínútum síðar var það svo Kristófer Páll Viðarsson sem bætti við fjórða marki Sandgerðinga eftir gott spil. Yfirburðir Reynis voru svo innsiglaðir þegar hinn ungi Elfar Máni Bragasson tók hornspyrnu á síðustu mínútu leiksins. Hann sá að Kristófer Levý Sigtryggsson var illa staðsettur í marki Völsungs og sendi bogabolta yfir hann sem og alla aðra leikmenn í vítateignum og skoraði beint úr hornspyrnunni. Ágætur dómari leiksins, Egill Arnar Sigurþósson, flautaði svo leikinn af stuttu síðar og sanngjarn stórsigur Reynis í höfn.

Næsti leikur Reynis er nágrannaslagur næsta fimmtudag. Þó verða ungmennafélagsmenn í Þrótti Vogum sóttir heim í leik sem hefst kl. 19:15.

Reynir – Völsungur 5-1 (1-0)

  1. deild karla á Blue-vellinum í Sandgerði laugardaginn 5. júní 2021.

Lið Reynis: Rúnar Gissuraron – Sindri Lars Ómarsson (Fannar Orri Sævarsson, 78. mín), Benedikt Jónsson, Strahinja Pajic (f.), Birkir Freyr Sigurðsson – Ási Þórhallsson, Magnús Þórir Matthíasson, Edon Osmani (Eiður Snær Unnarsson, 87. mín), Kristófer Páll Viðarsson (Elfar Máni Bragason, 82. mín), Magnús Magnússon (Óðinn Jóhannsson, 87. mín) – Hörður Sveinsson (Sæþór Ívan Viðarsson, 70. mín).

Ónotaðir varamenn Reynis: Andri Már Ingvarsson, Magnús Einar Magnússon.

Mörk Reynis: Hörður Sveinsson (38. mín víti, 63. mín), Magnús Þórir Matthíasson (59. mín), Kristófer Páll Viðarsson (73. mín), Elfar Máni Bragason (90. mín).