Lokahóf Knattspyrnudeildar Reynis var haldið í Reynisheimlinu laugardagskvöldið 19. september sl. Maggi Þóris á Réttinum bauð upp á glæsilegt hlaðborð og kom Jón Jónsson í heimsókn og skemmti gestum vel.
Að venju voru veittar viðurkenningar fyrir tímabilið. Þrír aðilar voru með 8 mörk í deildinni í sumar en af þeim þremur spilaði Hörður Sveinsson fæstar mínútur og var því markahæsti leikmaðurinn. Hinir tveir með 8 mörk voru þeir Kristófer Páll Viðarsson og Ivan Prskalo. Á hverju tímabili velja þjálfarar efnilegasta leikmanninn og að þessu sinni völdu þeir Sæþór Ivan Viðarsson. Handhafar stuðningsmannakorta kjósa ár hvert leikmann ársins á síðasta heimaleik sumarsins og var Rúnar Gissurarson valinn með miklum yfirburðum. Einnig kjósa leikmenn sín á milli um besta leikmann tímabilsins og völdu þeir einnig Rúnar. Stuðningsmenn ársins 2021 voru þeir Ástvaldur Ragnar Bjarnason og Árni Þór Rafnsson. Þeir félagar hafa stutt vel við félagið og eru ómissandi hluti af hópnum.
Rúnar Gissurarson og Sindri Lars Ómarsson fengu viðurkenningu fyrir 100 leiki fyrir félagið. Sindri náði þeim áfanga í útileik gegn Þrótti Vogum en Rúnar náði 100 leikjum í síðasta leik sumarsins gegn ÍR.
Stjórn Knattspyrnudeildar Reynis þakkar öllum þeim sem hafa komið að starfinu í sumar, þjálfurum, leikmönnum og sjálfboðaliðum fyrir sitt ómetanlega starf. Lifi Reynir!