Sanngjarn sigur í fyrsta leik

Sanngjarn sigur í fyrsta leik 1600 1067 Knattspyrnufélagið Reynir

Reynismönnum líður oftast vel í vindstrengnum á Ásvöllum í Hafnarfirði. Það sást þegar þeir sóttu Hauka heim í fyrstu umferð 2. deildarinnar árið 2021. Reynir vann sanngjarnan 0-2 sigur á heimamönnum sem fyrirfram eiga að teljast vera með eitt af sterkari liðum deildarinnar.

Rauðklæddir Haukar byrjuðu leikinn af krafti og voru nærri því að ná forystunni eftir nokkrar mínútur þegar Aron Freyr Róbertsson, sem er sonur gömlu Reyniskempunnar Róberts Ólafs Sigurðssonar, átti skot í stöngina. Þetta reyndist eina umtalsverða marktækifæri heimamanna í leiknum. Eftir um 20 mínútna leik voru hvítklæddir Reynismenn búnir að hrista úr sér sviðsskrekkinn og voru nálægt því að ná forystunni þegar skot Kristófers Páls Viðarssonar fór í slána eftir um hálftíma leik.

Í síðari hálfleik var vel skipulagt og baráttuglatt Reynisliðið sterkari aðilinn á vellinum. Hægir Haukar kunnu engin ráð til að opna sterka Reynisvörnina og hvað eftir annað skapaðist hætta þegar þeir hvítklæddu fóru í hraðar sóknir. Á 71. mínútu fékk Reynir hornspyrnu eftir eina slíka sókn og upp úr henni setti fyrirliðinn Strahinja Pajic boltann í net með smekklegri hælspyrnu. Eftir enn eitt hratt upphlaup Sandgerðinga var brotið á Kristofer Páli inn í teig þegar stutt var eftir af leiknum. Hinn svellkaldi Magnús Þórir Matthíason fór á punktinn, skoraði af öryggi úr vítaspyrnunni og tryggði Reynismönnum sanngjarnan útisigur í fyrsta deildarleik sumarsins 2021.

Næsti leikur Reynis er gegn KF á Blue-vellinum í Sandgerði laugardaginn 15. maí og hefst hann kl. 16:00.

 

Haukar – Reynir, 2. deild karla á Ásvöllum í Hafnarfirði, föstudaginn 7. maí 2021.

Lið Reynis: Rúnar Gissurarson – Fannar Orri Sævarsson (Krystian Wiktorowicz, 75. mín), Benedikt Jónsson, Unnar Már Unnarsson, Birkir Freyr Sigurðsson – Strahinja Pajic (f.), Ási Þórhallsson (Magnús Magnússon, 67. mín), Edon Osmani, Kirstófer Páll Viðarsson (Elfar Máni Bragason, 90. mín) – Magnús Þórir Matthíasson, Elton Renato Barros (Magnús Sverrir Þorsteinsson, 67. mín).

Ónotaðir varamenn Reynis: Andri Már Ingvarsson, Eiður Snær Unnarsson, Hörður Sveinsson.

Mörk Reynis: Stahinja Pajic (71. mín), Magnús Þórir Matthíasson, víti (89. mín).

Gul spjöld Reynis: Ási Þórhallson (44. mín), Unnar Már Unnarsson (46. mín), Stahinja Pajic (64. mín), Benedikt Jónsson (90.+5 mín).