Súrt tap í fyrsta heimaleik

Súrt tap í fyrsta heimaleik 1600 1067 Knattspyrnufélagið Reynir

Reynismenn máttu sætta sig við tap í fyrsta heimaleik sumarins 2021 þegar sterkt lið KF kom í heimsókn á Blue-völlinn í 2. deildinni. Lokatölur urðu 0-2 í leik þar sem bæði mörkin komu í síðari hálfleik.

Nokkuð jafnræði  var með liðunum í fyrri hálfleik í sólinni í Sandgerði. Lið Reynis leyfði gestunum að norðan að vera meira með knöttinn en sóttu hratt þegar boltinn vannst og voru nokkru sinnum nálægt því að koma knettinum í netið. Magnús Sverrir Þorsteinsson fékk besta færi Reynismanna þegar hann setti boltann hárnaumt fram hjá úr góðu færi. Hjá gestunum var kantmaðurinn Oumar Diouck hættulegastur og átti m.a. skot í stöng.

Það var svo einstaklingsframtak hjá Diouck sem skilaði KF forystunni þegar aðeins fimm mínútur voru liðnar af síðari hálfleik. Við það mark var sem allur kraftur væru úr heimamönnum og bláklæddir Tröllaskagadrengirnir tóku völdin á vellinum. Reynismenn töpuðu baráttunni á miðjunni og vörn KF átti svar við öllum sóknartilburðum Sandgerðinganna. Þegar korter var til leiksloka skoruðu gestirnir svo sitt annað mark þegar Theodore Wilson stangaði boltann í netið eftir hornspyrnu. Fátt markvert gerðist það sem eftir lifði leiks og norðanmenn stóðu uppi sem verðskuldaðir sigurvegarar.

Næsti leikur Reynis í 2. deildinni er föstudaginn 21. maí kl. 19:15 þegar Skagamennirnir í Kára koma í heimsókn.

 

Reynir – KF     0-2 (0-0)

  1. deild karla á Blue-vellinum í Sandgerði laugardaginn 15. maí 2021.

Lið Reynis: Rúnar Gissurarson – Fannar Orri Sævarsson, Ási Þórhallsson, Unnar Már Unnarsson, Birkir Freyr Sigurðsson (Óðinn Jóhannsson, 68. mín) – Srahinja Pajic (f.) (Hörður Sveinsson, 79. mín), Edon Osmani, Magnús Magnússon (Krystian Wiktorowicz, 64. mín), Kristófer Páll Viðarsson (Elfar Máni Bragason, 79. mín) – Magnús Sverrir Þorsteinsson, Elton Renato Barros.

Ónotaðir varamenn Reynis: Andri Már Ingvarsson, Magnús Þórir Matthíasson, Júlíus Davíð Juliusson Ajayi.

Gul spjöld Reynis: Fannar Orri Sævarsson (53. mín), Krystian Wiktorowicz, 85. mín).