Markalaust jafntefli í baráttuleik

Markalaust jafntefli í baráttuleik 2560 1467 Knattspyrnufélagið Reynir

Reynir og Haukar gerðu markalaust jafntefli á Blue-vellinum í Sandgerði í leik þar sem var hart tekist á. Suðaustanáttin var nokkuð ákveðin og léku Reynismenn undan henni í fyrri hálfleik. Heimamenn voru ívíð sterkari en þó var ekki mikið um marktækifæri á fyrstu 45 mínútunum. Rauðklæddir gestirnir úr félagi sr. Friðriks í Hafnarfirði voru ekki mikið fyrir að sýna kærleika í leik sínum. Með réttu hefði Aron Skúla Brynjarsson átt að fara snemma í sturtu þegar Reynismaðurinn Kristófer Páll Viðarsson fékk olnbogann á honum í höfuðið. Misjafn dómari leiksins, Kristinn Friðrik Hrafnsson, leit atvikið þó ekki alveglegri augum en svo að Haukamaðurinn fékk aðeins gula spjaldið.

 

Dómarinn Kristinn hikaði hins vegar ekki þegar hann gaf Reynisfyrirliðanum Strahinja Pajic beint rautt spjald á 75. mínútu eftir að Haukamaður keyrði inn í hann þegar hann var að senda boltann inn fyrir vörn gestanna. Reynismenn voru undrandi að heyra flaut dómarans þar sem þeir héldu að hann væri að dæma þeim aukaspyrnu og þar með að stoppa efnilega sókn. Undrunin breyttist hins vegar fljótt í reiði þegar rauða spjaldið var sett hátt á loft og Reynir þurti að vera manni færri það sem eftir lifði leiks. Haukarnir sóttu eðlilega meira það sem eftir lifði en Rúnar Gissurarson tvisvar meistarlega og kom þar með í veg fyrir að Hafnfirðingar stælu sigrinum. Það var hins vegar Reynismaðurinn Magnús Magnússon sem fékk besta færi leiksins snemma í seinni hálfleik þegar hann skaut framhjá fyrir opnu marki. Niðurstaðan varð því markalaust jafntefli í hörkuleik sem verða að teljast sanngjörn úrslit.

 

Næsti leikur Reynis er við Kára í ískaldri Akraneshöllinni miðvikudaginn 28. júlí og hefst hann kl. 19:15. Þar verða Sandgerðingar án fyrirliðans Strahinja Pajic og varnarboltans Benedikts Jónssonar sem fékk sjöunda gula spjald sumarsins í leiknum við Hauka. Þeir taka því báðir út leikbann í þessum mikilvæga leik á Akranesi sem Reynismenn verða að vinna ef þeir ætla ekki að dragast niður í fallbaráttu 2. deildar.

 

Reynir – Haukar 0-0 (0-0).

  1. deild karla á Blue-vellinum í Sandgerði fimmtudaginn 22. júlí 2021.

Lið Reynis: Rúnar Gissuarson – Sindri Lars Ómarsson, Benedikt Jónsson, Unnar Már Unnarsson, Birkir Freyr Sigurðsson – Strahinja Pajic (f.), Ási Þórhallsson (Sæþór Ívar Viðarsson, 60. mín), Edon Osmani, Magnús Magnússon (Magnús Sverrir Þorsteinsson, 60. mín), Kristófer Páll Viðarsson – Ivan Prskalo (Hörður Sveinsson, 83. mín).

Ónotaðir varamenn Reynis: Aron Elís Árnason, Elfar Máni Bragason, Óðinn Jóhannsson, Fannar Óli Sævarsson.

Gul spjöld Reynis: Ási Þórhallson (33. mín), Benedikt Jónsson (66. mín), Birkir Freyr Sigurðsson (75. mín), Haraldur Freyr Guðmundsson (þjálfari, 76. mín), Sindri Lars Ómarsson (78. mín).

Rautt spjald Reynis: Strahinja Pajic (75. mín).