Jökull Máni í Reyni

Jökull Máni í Reyni 1367 977 Knattspyrnufélagið Reynir

Það gleður okkur að tilkynna að hinn bráðefnilegi varnarmaður, Jökull Máni Jakobsson, er genginn til liðs við okkur. Jökull, sem er 18 ára Keflvíkingur, kemur á láni frá Keflavík út keppnistímabilið 2022. Jökull var valinn leikmaður ársins í sameiginlegum 2. flokki Keflavíkur, Reynis og Víðis á síðasta tímabili.

Óhætt er að segja að Jökull eigi sterkar tengingar í Sandgerði.

Faðir hans er Sandgerðingurinn Jakob Már Jónharðsson. Jakob steig sín fyrstu skref á meistaraflokksferlinum með Reyni sumarið 1988 þegar hann lék alla leiki liðsins í deild og bikar. Eftir það sumar hélt hann á braut og lék með ÍBV, Keflavík og Val hér á landi. Hann þjálfaði svo Reyni ásamt Ragnari Steinarssyni sumarið 2007 þegar við lékum í 1. Deild.

Móðir hans er Sandgerðingurinn Freyja Sigurðardóttir en hún er afar vinsæll og virtur líkamsræktarþjálfari. Hún átti farsælan feril í fimleikum og varð margfaldur Íslands- og bikarmeistari í fitness.

Stjúpfaðir Jökuls er Haraldur F. Guðmundsson, þjálfari Reynis frá 2018-2021. Halli náði frábærum árangri með okkar lið, fór upp um tvær deildir á þeim fjórum tímabilum sem hann þjálfaði liðið.

Síðast en ekki síst ber þess að geta að pabbi Jakobs og afi Jökuls er hinn mikli Reynismaður Jonhard Vest Jákupson frá Vági á Suðurey Færeyja.
Jonhard lék fjölmarga leiki með Reyni á árunum 1964-1974. Hann var mikill markaskorari og var með baneitraðan vinstri fót.

Við bjóðum Jökul hjartanlega velkominn í félagið og væntum þess að hann setji mark sitt á spennandi tímabil sem framundan er.