Knattspyrna

Mynd: Hafliði Breiðfjörð - Fótbolti.net

Benni framlengir

Benni framlengir 700 611 Knattspyrnufélagið Reynir

Það gleður okkur að tilkynna að varnarjaxlinn Benedikt Jónsson hefur framlengt samning sinn við okkur til loka næsta tímabils. Benni, sem er 24 ára Keflvíkingur, hefur leikið allan sinn meistaraflokksferil með okkur, alls 49 leiki og hefur skorað í þeim 1 geggjað mark. Benni er mikill stríðsmaður sem gefur aldrei tommu eftir á vellinum og ákaflega mikilvægur karakter í okkar hóp. Stjórn ksd. Reynis fagnar því að hafa Benna áfram í okkar herbúðum og hlakkar til að sjá hann í Reynistreyjunni næstkomandi tímabil.

Mynd: Hafliði Breiðfjörð – Fótbolti.net

Strahinja framlengir

Strahinja framlengir 1600 1197 Knattspyrnufélagið Reynir

Það er stjórn KSD Reynis sönn ánægja að tilkynna að fyrirliðinn Strahinja Pajic hefur samið við Reyni út tímabilið 2023.

Strax, eins og hann er oft kallaður, hefur verið lykilmaður frá því að hann kom fyrst til liðsins árið 2017. Hann hefur leikið 84 leiki í hvítu treyjunni og hefur skorað í þeim 15 mörk.

“Ég er mjög spenntur fyrir mínu fimmta tímabili með Reyni og er stoltur að vera hluti af þessu frábæra félagi og fjölskyldu. Ég get ekki beðið eftir að leika fyrir liðið á næsta tímabili”, sagði Strahinja af þessu tilefni.

Luka ráðinn þjálfari Reynis

Luka ráðinn þjálfari Reynis 720 521 Knattspyrnufélagið Reynir

Luka Jagacic hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks Reynis til næstu tveggja ára. Luka ætti að vera öllu Reynisfólki kunnugur en kom upphaflega til félagins sem leikmaður árið 2019. Hann lenti í því óláni að rífa liðþófa og lék því ekki með liðinu. Hann var ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks síðar sama ár.

Luka er með UEFA B þjálfararéttindi og er á lokasprettinum með UEFA A réttindin.

“Ég er mjög ánægður og spenntur fyrir þessari áskorun. Ég hef trú á sjálfum mér og liðinu og veit að við munum eiga frábært tímabil saman.”, sagði Luka Jagacic við undirritun samnings í Reynisheimilinu í dag.

Stjórn Knattspyrnudeildar Reynis lýsir yfir mikilli ánægju með ráðninguna og hlakkar til áframhaldandi samstarfs við Luka.

Fréttatilkynning

Fréttatilkynning 1600 1115 Knattspyrnufélagið Reynir

Á dögunum rann út ráðningarsamningur milli knattspyrnudeildar Reynis og Haraldar Freys Guðmundssonar um þjálfun meistaraflokks karla. Halli hefur staðið vaktina með okkur frá því haustið 2017. Óhætt er að segja að hann hafi verið farsæll í sínum störfum fyrir félagið á þessum 4 árum.

Hann tók við liðinu í 4. deildinni og skilar því nú af sér í 2. deild. Stjórn ksd. Reynis bauð Haraldi áframhaldandi samning strax að loknu síðastliðnu keppnistímabili. Halli hefur hins vegar ákveðið að róa á önnur mið og taka næstu skref á þjálfaraferli sínum.

Stjórn ksd. Reynis vill nýta tækifærið og þakka Halla kærlega fyrir frábær ár hjá félaginu. Halli mun alltaf eiga stað í hjarta Reynisfólks. Við óskum honum velfarnaðar í hverju því sem hann tekur sér fyrir hendur í framtíðinni.

Lokahóf knattspyrnudeildar

Lokahóf knattspyrnudeildar 2560 1920 Knattspyrnufélagið Reynir

Lokahóf Knattspyrnudeildar Reynis var haldið í Reynisheimlinu laugardagskvöldið 19. september sl. Maggi Þóris á Réttinum bauð upp á glæsilegt hlaðborð og kom Jón Jónsson í heimsókn og skemmti gestum vel.

Að venju voru veittar viðurkenningar fyrir tímabilið. Þrír aðilar voru með 8 mörk í deildinni í sumar en af þeim þremur spilaði Hörður Sveinsson fæstar mínútur og var því markahæsti leikmaðurinn. Hinir tveir með 8 mörk voru þeir Kristófer Páll Viðarsson og Ivan Prskalo. Á hverju tímabili velja þjálfarar efnilegasta leikmanninn og að þessu sinni völdu þeir Sæþór Ivan Viðarsson. Handhafar stuðningsmannakorta kjósa ár hvert leikmann ársins á síðasta heimaleik sumarsins og var Rúnar Gissurarson valinn með miklum yfirburðum. Einnig kjósa leikmenn sín á milli um besta leikmann tímabilsins og völdu þeir einnig Rúnar. Stuðningsmenn ársins 2021 voru þeir Ástvaldur Ragnar Bjarnason og Árni Þór Rafnsson. Þeir félagar hafa stutt vel við félagið og eru ómissandi hluti af hópnum.

Rúnar Gissurarson og Sindri Lars Ómarsson fengu viðurkenningu fyrir 100 leiki fyrir félagið. Sindri náði þeim áfanga í útileik gegn Þrótti Vogum en Rúnar náði 100 leikjum í síðasta leik sumarsins gegn ÍR.

Stjórn Knattspyrnudeildar Reynis þakkar öllum þeim sem hafa komið að starfinu í sumar, þjálfurum, leikmönnum og sjálfboðaliðum fyrir sitt ómetanlega starf. Lifi Reynir!

 

Stórsigur gegn KV á Blue vellinum

Stórsigur gegn KV á Blue vellinum 1600 1067 Knattspyrnufélagið Reynir

Reynismenn tóku á móti Knattspyrnufélagi Vestubæjar á Blue vellinum á fimmtudaginn. Í fyrri hálfleik voru leikmenn KV ívið sterkari án þess að skapa sér mörg hættuleg færi en í seinni hálfleik opnuðust hins vegar allar flóðgáttir og voru fimm mörk skoruð. KV komst strax yfir eftir 7 mínútna leik í síðari hálfleik þegar Grímur Ingi Jakobsson kom boltanum í netið framhjá Rúnari. Reynismenn svöruðu 9 mínútum síðar með laglegu marki frá Ivan Prskalo. Á 76. mínútu fengu Reynismenn vítaspyrnu þegar Magnús Þórir var sparkaður niður í teignum. Magnús Sverrir fór á línuna og skoraði af miklu öryggi. Á næstu 10 mínútum skoraði Kristófer Páll tvö glæsileg mörk og tryggði Reynismönnum stigin þrjú.

 

Myndir: Víkurfréttir / Hilmar Bragi

 

Markalaust jafntefli í baráttuleik

Markalaust jafntefli í baráttuleik 2560 1467 Knattspyrnufélagið Reynir

Reynir og Haukar gerðu markalaust jafntefli á Blue-vellinum í Sandgerði í leik þar sem var hart tekist á. Suðaustanáttin var nokkuð ákveðin og léku Reynismenn undan henni í fyrri hálfleik. Heimamenn voru ívíð sterkari en þó var ekki mikið um marktækifæri á fyrstu 45 mínútunum. Rauðklæddir gestirnir úr félagi sr. Friðriks í Hafnarfirði voru ekki mikið fyrir að sýna kærleika í leik sínum. Með réttu hefði Aron Skúla Brynjarsson átt að fara snemma í sturtu þegar Reynismaðurinn Kristófer Páll Viðarsson fékk olnbogann á honum í höfuðið. Misjafn dómari leiksins, Kristinn Friðrik Hrafnsson, leit atvikið þó ekki alveglegri augum en svo að Haukamaðurinn fékk aðeins gula spjaldið.

 

Dómarinn Kristinn hikaði hins vegar ekki þegar hann gaf Reynisfyrirliðanum Strahinja Pajic beint rautt spjald á 75. mínútu eftir að Haukamaður keyrði inn í hann þegar hann var að senda boltann inn fyrir vörn gestanna. Reynismenn voru undrandi að heyra flaut dómarans þar sem þeir héldu að hann væri að dæma þeim aukaspyrnu og þar með að stoppa efnilega sókn. Undrunin breyttist hins vegar fljótt í reiði þegar rauða spjaldið var sett hátt á loft og Reynir þurti að vera manni færri það sem eftir lifði leiks. Haukarnir sóttu eðlilega meira það sem eftir lifði en Rúnar Gissurarson tvisvar meistarlega og kom þar með í veg fyrir að Hafnfirðingar stælu sigrinum. Það var hins vegar Reynismaðurinn Magnús Magnússon sem fékk besta færi leiksins snemma í seinni hálfleik þegar hann skaut framhjá fyrir opnu marki. Niðurstaðan varð því markalaust jafntefli í hörkuleik sem verða að teljast sanngjörn úrslit.

 

Næsti leikur Reynis er við Kára í ískaldri Akraneshöllinni miðvikudaginn 28. júlí og hefst hann kl. 19:15. Þar verða Sandgerðingar án fyrirliðans Strahinja Pajic og varnarboltans Benedikts Jónssonar sem fékk sjöunda gula spjald sumarsins í leiknum við Hauka. Þeir taka því báðir út leikbann í þessum mikilvæga leik á Akranesi sem Reynismenn verða að vinna ef þeir ætla ekki að dragast niður í fallbaráttu 2. deildar.

 

Reynir – Haukar 0-0 (0-0).

  1. deild karla á Blue-vellinum í Sandgerði fimmtudaginn 22. júlí 2021.

Lið Reynis: Rúnar Gissuarson – Sindri Lars Ómarsson, Benedikt Jónsson, Unnar Már Unnarsson, Birkir Freyr Sigurðsson – Strahinja Pajic (f.), Ási Þórhallsson (Sæþór Ívar Viðarsson, 60. mín), Edon Osmani, Magnús Magnússon (Magnús Sverrir Þorsteinsson, 60. mín), Kristófer Páll Viðarsson – Ivan Prskalo (Hörður Sveinsson, 83. mín).

Ónotaðir varamenn Reynis: Aron Elís Árnason, Elfar Máni Bragason, Óðinn Jóhannsson, Fannar Óli Sævarsson.

Gul spjöld Reynis: Ási Þórhallson (33. mín), Benedikt Jónsson (66. mín), Birkir Freyr Sigurðsson (75. mín), Haraldur Freyr Guðmundsson (þjálfari, 76. mín), Sindri Lars Ómarsson (78. mín).

Rautt spjald Reynis: Strahinja Pajic (75. mín).

Ivan Prskalo í Reyni

Ivan Prskalo í Reyni 2560 1920 Knattspyrnufélagið Reynir

Knattspyrnudeild Reynis hefur samið við króatíska framherjann Ivan Prskalo um að leika með félaginu út tímabilið. Ivan hefur áður spilað hér á landi en hann var hjá Njarðvík sumrin 2019 og 2020. Með Njarðvík spilaði hann 24 leiki og skoraði í þeim 11 mörk.

Hann er nú þegar kominn til Íslands og getur tekið þátt í næsta leik Reynis föstudaginn nk. kl 19:15 þegar liðið mætir ÍR á BLUE vellinum.

Ivan mun fylla skarð Elton „Fufura“ Barros sem sleit krossbönd í hné fyrr á tímabilinu. Fufura fór í aðgerð nýlega og gekk hún framar vonum.

Stjórn Knattspyrnudeildar Reynis býður Ivan hjartanlega velkominn í fjölskylduna og hlakkar til að sjá hann í Reynistreyjunni.

Aðalfundur knattspyrnudeildar

Aðalfundur knattspyrnudeildar 2560 1707 Knattspyrnufélagið Reynir

Aðalfundur Knattspyrnudeildar Reynis fór fram í Reynisheimilinu þriðjudaginn 8. júní sl. en fundinn átti að halda í byrjun mars en ekki varð að því vegna. Á dagskrá voru hefðbundin aðalfundarstörf.

Sigursveinn Bjarni Jónsson, formaður knattspyrnudeildar, setti fundinn og gerði að tillögu sinni að Andri Þór Ólafsson yrði fundarstjóri og Ástrós Jónsdóttir fundarritari.

Sigursveinn fór yfir reikninga deildarinnar og skýrslu stjórnar.

Stjórn knattspyrnudeildar var kjörin og er hún skipuð sömu einstaklingum og á síðasta ári:

Sigursveinn Bjarni Jónsson, formaður
Hjördís Ósk Hjartardóttir, varaformaður
Ástrós Jónsdóttir, gjaldkeri
Andri Þór Ólafsson, ritari
Ásdís Ösp Ólafsdóttir, meðstjórnandi
Björn Ingvar Björnsson, meðstjórnandi
Hannes Jón Jónsson, meðstjórnandi
Ása Ingibjörg Sigurbjörnsdóttir, varamaður
Jóhann Jóhannsson, varamaður
Margrét Bjarnadóttir, varamaður

Þess má geta að kynjahlutfall innan stjórnar (aðal- og varamenn) er jafn, fimm karlar og fimm konur.

Þungur dagur í Sandgerði

Þungur dagur í Sandgerði 1600 1186 Knattspyrnufélagið Reynir

Reynismenn áttu frekar dapran dag þegar grænklæddir nágrannar þeirra frá Njarðvík komu í heimsókn í 2. deildinni. Eftir markalausan og tíðindalítinn fyrri hálfleik náðu gestirnir forystu þegar aðeins tvær mínútur voru liðnar af þeim síðari þegar Bergþór Ingi Smárason náði að koma boltanum í netið. Við þetta kom smá neisti í Reynisliðið og innan við fimm mínútum síðar var Kristófer Páll Viðarsson, sem var valinn maður leiksins af stuðningsmönnum Reynis, búinn að jafna metin. Á næstu augnablikum virtist sem Reynismenn væru að taka öll völd á vellinum og Njarðvíkingarnir áttu í vök að verjast. Þeir hins vegar náðu einni skyndisókn sem endaði með góðu skoti frá ungum leikmanni sem ber nafnið Magnús Þórðarson og það endaði í bláhorninu á marki Rúnars Gissuarsonar. Ekki er nóg með að þessi ungi leikmaður deili nafni með einni af goðsögnum Reynisfélagsins heldur er hann sonur gömlu Reyniskempunnar Þórðar Marelssonar og þar með barnabarn Marels Andréssonar sem var heiðursfélagi í Reyni. Verst fyrir Sandgerðinga að í þetta skiptið var hann að spila með liðinu úr Reykjanesbæ. Það sem eftir lifði leiks virtust Reynismenn aldrei líklegir til að ná að skora þrátt fyrir að vera meira með boltann og þegar um korter var eftir náði gamla kempan Kenneth Hogg að bæta við þriðja marki gestanna og þar við sat. Njarðvíkingar fóru til baka yfir Miðnesheiðina með stigin þrjú eftir leik þar sem Reynismenn fundu aldrei fjölina sína.

 

Næsti leikur Reynis er næsta sunnudag á Eskjuvelli á Eskifirði og hefst hann kl. 16:00. Þar verða Austfirðingarnir í Fjarðabyggð sóttir heim, en þeir sitja eins og er í næst neðsta sæti deildarinnar með aðeins fjögur stig eftir níu leiki á meðan Reynir er í sjötta sæti með 13 stig eftir jafn marga leiki.

 

Reynir – Njarðvík 1-3 (0-0)

  1. deild karla á Blue-vellinum í Sandgerði miðvikudaginn 30. júní 2021.

Lið Reynis: Rúnar Gissuarson – Sæþór Ívan Viðarsson, Benedikt Jónsson, Unnar Már Unnarsson, Birkir Freyr Sigurðsson (f.) – Magnús Þórir Matthíasson, Ási Þórhallsson, Edon Osmani, Kristófer Páll Viðarsson, Magnús Sverrir Þorsteinsson – Hörður Sveinsson (Magnús Magnússon, 70. mín).

Ónotaðir varamenn Reynis: Andri Már Ingvarsson, Eiður Snær Unnarsson, Krystian Wiktorowicz, Óðinn Jóhannsson, Strahinja Pajic, Fannar Orri Sævarsson.

Mark Reynis: Kristófer Páll Viðarsson (52. mín).

Gult spjald Reynis: Benedikt Jónsson (50. mín).