Knattspyrna

Breytingar á þjálfarateymi meistaraflokks

Breytingar á þjálfarateymi meistaraflokks 940 600 Knattspyrnufélagið Reynir

Luka Jagacic og stjórn knattspyrnudeildar Reynis hafa komist að samkomulagi um starfslok Luka hjá félaginu sem þjálfari meistaraflokks.

Luka gekk til liðs við Reyni sem leikmaður fyrir keppnistímabilið 2019. Hann lenti í slæmum meiðslum sem urðu þess valdandi að hann lagði skóna á hilluna þá um vorið. Luka bauð þá fram krafta sína sem aðstoðarmaður þjálfara og fljótt varð auðsýnt að hann hafði brennandi áhuga og ótvíræða hæfileika til að leggja fyrir sig þjálfun. Hann var aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla keppnistímabilin 2020 og 2021. Síðastliðið haust var hann ráðinn sem aðalþjálfari liðsins en lætur nú af störfum. Luka lauk nýverið UEFA-A þjálfunargráðu.

Stjórn knattspyrnudeildar vill þakka Luka fyrir frábært samstarf í gegnum árin.

Bjarki Már Árnason hefur verið ráðinn aðalþjálfari meistaraflokks karla og hefur hann nú þegar tekið til starfa.

Síðasti leikur Lengjubikarsins í kvöld!

Síðasti leikur Lengjubikarsins í kvöld! 1600 1197 Knattspyrnufélagið Reynir

Reynismenn halda í Grafarvoginn í kvöld og leika gegn Vængjum Júpíters í síðasta leik okkar manna í Lengjubikarnum þetta árið. Leikurinn fer fram á gervigrasinu fyrir utan Egilshöll og hefst kl 19:30.

Mjólkurbikarinn hefst svo föstudaginn 8. apríl nk. með leik Reynis gegn nýstofnuðu liði Árbæjar. Um heimaleik Reynis er að ræða en sökum vallarástands og aðstöðuleysis mun leikurinn fara fram á gervigrasinu á Domusnova vellinum í Breiðholti.

Sumarið er rétt handan við hornið, fjölmennum á völlinn og styðjum strákana okkar!

Reynismenn fá liðsstyrk

Reynismenn fá liðsstyrk 2560 1920 Knattspyrnufélagið Reynir

Björn Aron Björnsson er gengin til liðs við Reyni á láni út tímabilið frá Keflavík. Björn er 21 árs gamall og var á láni hjá Víði í 3. deildinni á síðasta tímabili þar sem hann lék 24 leiki í deild og bikar.

Knattspyrnudeild Reynis býður Björn hjartanlega velkominn og hlakkar til samstarfsins á komandi tímabili.

Hörður í Njarðvík

Hörður í Njarðvík 1200 873 Knattspyrnufélagið Reynir

Sóknarmaðurinn Hörður Sveinsson hefur gengið til liðs við Njarðvík og mun leika með liðinu í 2. deild á komandi tímabili. Hörður kom til Reynis á miðju tímabili 2018 þegar liðið lék í riðlakeppni 4. deildar. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðar en Hörður hefur leikið 64 leiki og skorað 27 mörk fyrir félagið, þar af 8 mörk á síðasta tímabili.

Knattspyrnudeild Reynis vill þakka Herði fyrir sitt mikilvæga framlag fyrir félagið og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Zoran Plazonic í Reyni

Zoran Plazonic í Reyni 1600 733 Knattspyrnufélagið Reynir

Miðjumaðurinn Zoran Plazonic hefur gengið til liðs við Reyni. Zoran er reynslumikill 33 ára Króati sem hefur leikið 86 leiki hér á landi og skorað í þeim 16 mörk. Hann lék 14 leiki með Njarðvík á síðasta tímabili en hann hefur einnig leikið með Vestra hér á landi.

Stjórn Knattspyrnudeild Reynis bindur miklar vonir við Zoran og hlakkar til samstarfsins á komandi sumri!

Dobrodošao Zoran!

Samningur undirritaður við Suðurnesjabæ

Samningur undirritaður við Suðurnesjabæ 2560 1244 Knattspyrnufélagið Reynir

Á dögunum mætti fulltrui Knattspyrnudeildar Reynis í Ráðhús Suðurnesjabæjar og skrifaði undir samning við sveitarfélagið um áframhaldandi samstarf. Stjórn Knattspyrnudeildar Reynis þakkar Suðurnesjabæ fyrir gott samstarf á liðnum árum og ómetanlegan stuðning. Það er mikilvægt fyrir íþróttafélög að eiga sterka og góða bakhjarla í sinni heimabyggð.

Mynd: Suðurnesjabær – Frá undirritun samstarfssamninga við íþróttafélög

Silfur í Fótbolta.net mótinu

Silfur í Fótbolta.net mótinu 1170 876 Knattspyrnufélagið Reynir

Reynismenn léku í gær úrslitaleik í C deild Fótbolta.net mótsins gegn Haukum og fór leikurinn fram í Skessunni Hafnarfirði. Lið Hauka byrjaði betur og voru sterkari aðillinn fyrstu 30 mínútur leiksins. Það skilaði þeim tveimur mörkum og var staðan því 2-0 fyrir Haukum þegar flautað var til leikhlés.

Reynismenn komu vel gíraðir inn í síðari hálfleik og var mun meira jafnræði með liðunum. Sæþór Ívan Viðarsson skoraði fyrir Reyni um miðjan síðari hálfleik og voru okkar menn óheppnir að jafna ekki undir lokin. Niðurstaðan 2-1 tap og Reynismenn taka því silfrið í Fótbolta.net mótinu þetta árið.

Luka Jagacic þjálfari Reynis var í viðtali við Fótbolta.net eftir leik, viðtalið má sjá hér.

Lengjubikarinn hefst næstu helgi og er fyrsti leikur Reynismanna gegn Þrótti Reykjavík á Eimskipsvellinum í Laugardal, laugardaginn 19. febrúar kl. 14:00

Jökull Máni í Reyni

Jökull Máni í Reyni 1367 977 Knattspyrnufélagið Reynir

Það gleður okkur að tilkynna að hinn bráðefnilegi varnarmaður, Jökull Máni Jakobsson, er genginn til liðs við okkur. Jökull, sem er 18 ára Keflvíkingur, kemur á láni frá Keflavík út keppnistímabilið 2022. Jökull var valinn leikmaður ársins í sameiginlegum 2. flokki Keflavíkur, Reynis og Víðis á síðasta tímabili.

Óhætt er að segja að Jökull eigi sterkar tengingar í Sandgerði.

Faðir hans er Sandgerðingurinn Jakob Már Jónharðsson. Jakob steig sín fyrstu skref á meistaraflokksferlinum með Reyni sumarið 1988 þegar hann lék alla leiki liðsins í deild og bikar. Eftir það sumar hélt hann á braut og lék með ÍBV, Keflavík og Val hér á landi. Hann þjálfaði svo Reyni ásamt Ragnari Steinarssyni sumarið 2007 þegar við lékum í 1. Deild.

Móðir hans er Sandgerðingurinn Freyja Sigurðardóttir en hún er afar vinsæll og virtur líkamsræktarþjálfari. Hún átti farsælan feril í fimleikum og varð margfaldur Íslands- og bikarmeistari í fitness.

Stjúpfaðir Jökuls er Haraldur F. Guðmundsson, þjálfari Reynis frá 2018-2021. Halli náði frábærum árangri með okkar lið, fór upp um tvær deildir á þeim fjórum tímabilum sem hann þjálfaði liðið.

Síðast en ekki síst ber þess að geta að pabbi Jakobs og afi Jökuls er hinn mikli Reynismaður Jonhard Vest Jákupson frá Vági á Suðurey Færeyja.
Jonhard lék fjölmarga leiki með Reyni á árunum 1964-1974. Hann var mikill markaskorari og var með baneitraðan vinstri fót.

Við bjóðum Jökul hjartanlega velkominn í félagið og væntum þess að hann setji mark sitt á spennandi tímabil sem framundan er.

Leikir framundan: Fótbolti.net mótið og Lengjubikarinn

Leikir framundan: Fótbolti.net mótið og Lengjubikarinn 2560 1920 Knattspyrnufélagið Reynir

Reynismenn taka þátt í C deild Fótbolta.net mótsins í ár og eru í riðli 1 ásamt Augnablik, Hvíta Riddaranum og Elliða. Fyrsti leikur Reynis er útileikur gegn Hvíta Riddaranum á Fagverksvellinum við Varmá á morgun, sunnudaginn 23. janúar, og hefst leikurinn kl 12.

Leikir Reynis í Fótbolti.net mótinu:
Sunnudagur 23. jan kl. 12:00              Hvíti Riddarinn – Reynir          Fagverksvöllurinn Varmá
Fimmtudagur 27. jan kl. 20:15           Reynir – Elliði                           Nettó höllin – gervigras
Sunnudagur 6. feb kl. 17:00               Augnablik – Reynir                   Fagrilundur – gervigras

Leikið erum um sæti laugardaginn 12. febrúar.

Strax í kjölfarið fer af stað keppni í Lengjubikarnum en Reynismenn leika í B deild, riðli 2.
Hérna má sjá leikjadagskrá bikarsins á heimasíðu KSÍ.

Reynismenn fá tvo leikmenn

Reynismenn fá tvo leikmenn 2560 1920 Knattspyrnufélagið Reynir

Knattspyrnudeild Reynis hefur samið við tvo leikmenn, þá Ægi Þór Viðarsson og Einar Sæþór Ólason. Báðir eru þeir af Suðurnesjum en þeir léku alla yngri flokka og upp í 2. flokk með Keflavík. Þeir hafa verið við æfingar frá því síðasta haust og hafa núna skrifað undir samning út tímabilið 2022.

Ægir Þór er 20 ára framherji en hann lék síðasta sumar með sameiginlegum 2. flokki Keflavíkur/Reynis og Víðis. Einar er 20 ára varnarmaður sem lék á síðasta tímabili með liði RB úr Reykjanesbæ, þar áður lék hann með Keflavík.

Stjórn Knattspyrnudeildar Reynis býður þá félaga hjartanlega velkomna og hlakkar til að sjá þá á vellinum í sumar.